30/03/2013
RESTINGMIND CONCERTS 10 ÁRA
- Fagnað með stórtónleikum í Eldborg í Hörpu
Sumarið 2003 var um margt athyglisvert hér á Íslandi og ekki síst fyrir þær sakir að þá hóf Restingmind Concerts göngu sína. Ekki var lagst á garðinn þar sem hann var lægstur heldur var til landsins boðið ein skærasta stjarnan á þungarokkshimninum þá: Mastodon! Haldnir voru tvennir legendary tónleikar með köppunum við það tilefni sem fólk er enn að tala um!
Síðan þá hefur Restingmind staðið fyrir komu heljarinnar skara af erlendum þungarokksböndum til landsins og þar ber helst að nefna sveitir eins og Amon Amarth (tvisvar), Cannibal Co**se, Týr (nokkrum sinnum), Steelheart, Evergrey, Into Eternity, Loch Vostok, Zero Hour, Finntroll, Freak Kitchen, Mercenary og Pestilence.
Einnig hefur Restingmind staðið í útrás og síðan 2009 tekið þátt í stærstu þungarokkskeppni heims: Wacken Metal Battle, þar sem yfir 30 þjóðir halda hljómsveitakeppnir í sínum heimalöndum. Þær sveitir sem þar sigra halda svo utan til Þýskalands og spila á stærstu þungarokkshátíð heims, Wacken Open Air.
2013 er því líklega enn merkilegra en 2003, því ekki er bara Wacken Metal Battle á Íslandi 5 ára heldur fagnar Restingmind Concerts víst 10 ára afmæli. Ó hvað tíminn líður...
En, það þýðir ekkert að tvínóna við þetta og þessu skal fagnað með viðeigandi hætti í stórkostlegasta tónleikasal landans: Eldborg í Hörpu 6. apríl. Þar mun Skálmöld leika fyrir dansi ásamt því að næsti fulltrúi Íslands á Wacken verður valinn í Metal Battle keppninni. Ennfremur mun Gone Postal sýna af hverju þeir stóðu á sviðinu á Wacken í fyrra.
Þeir sveitir sem taka þátt í keppninni í ár: Abacination, Azoic, Blood Feud, In The Company Of Men, Moldun og Ophidian I. Mun svo hljómsveitin Trust The Lies opna kvöldið með stæl.
Vonumst við til að sem flestir sjái sér fært að mæta!
Hægt er að næla sér í miða á heimasíðu Hörpunnar og midi.is ásamt því að rölta í miðasöluna í Hörpunni eða útsölustaði midi.is í Brim Laugavegi og Kringlunni. Frekari upplýsingar má svo finna hérna: http://www.facebook.com/events/318285924941763/
- Þorsteinn K